Search

Gísli Rúnar Jónsson

Updated: Aug 20, 2020

Gísli Rúnar Jónsson, leikari, rithöfundur og þýðandi, lést 28. Júlí 2020, 67 ára að aldri.

Gísli Rúnar fæddist í Reykjavík 20. mars 1953, sonur hjónanna Guðrúnar Valgerðar Gísladóttur, skáldkonu og Jóns Konráðs Björnssonar, kaupmanns.


Hann stundaði leiklistarnám við Leiklistarskóla Ævars Kvaran 1969-70, var í námi og leikhústengdum störfum hjá LA 1970-71, í undirbúningsnámi við Leiklistarskóla leikhúsanna 1974 og leiklistarnámi þar 1974-75, stundaði framhaldsnám í leiklist við The Drama Studio í London og brautskráðist þaðan 1981.


Gísli hóf feril sinn sem skemmtikraftur í sjónvarpi með Júlíusi Brjánssyni í Kaffibrúsakörlunum, 1972-73 og lék síðan í, leikstýrði og skrifaði fjölda útvarps- og sjónvarpsþátta. Þá kom hann að tveimur tugum áramótaskaupa, og gerði auglýsingar fyrir útvarp og sjónvarp.


Hann stofnaði og rak Gríniðjuna hf. í félagi við Eddu Björgvinsdóttur, Þórhall Sigurðsson (Ladda) og Júlíus Brjánsson á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Þá var hann leikari, leikstjóri, höfundur og þýðandi að leikritum, skemmtidagskrám, revíum og kabarettum fyrir Þjóðleikhúsið, LR, LÍ, LA, Alþýðuleikhúsið, Hitt leikhúsið, Útvarpsleikhúsið, Listahátíð o.fl. Einnig var hann flytjandi efnis á hljómplötum og mynddiskum af margvíslegu tagi og lék í kvikmyndum.


Bækur eftir Gísla eru m.a. Bo & Co-með íslenskum texta, Ég drepst þar sem mér sýnist – Gísli Rúnar & Grínarar hringsviðsins segja sögur úr sviðsljósinu – & skugga þess og Laddi: Þróunarsaga mannsins sem kom okkur til að hlæja.


Eiginkona og lífsförunautur Gísla var Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, leikkona. Synir þeirra eru Björgvin Franz og Róbert Óliver en Björgvin er giftur Berglindi Ólafsdóttur, börn: Edda Lovísa og Dóra og Róbert Oliver er í sambúð með Sigríði Gísladóttur. Stjúpdætur Gísla og dætur Eddu eru Eva Dögg, gift Bjarna Ákasyni, börn: Sara Ísabella og Fannar Daníel Guðmundsbörn og Bjarni Gabríel og Viktor Áki Bjarnasynir, og Margrét Ýrr gift Sigurði Rúnari Sigurðarsyni, börn: Karen Eva, Rakel Ýrr og Björgvin Geir.


Útför Gísla Rúnars fer fram fimmtudaginn 20. ágúst næstkomandi, en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verður útförin aðeins fyrir nánustu, en henni verður streymt á netinu og í beinni útsendingu í sjónvarpi Símans. Útförin hefst klukkan 15.00. Nánar um streymið á www.gislirunar.is

199 views0 comments